
Síðla í ágúst 2021 bauð Elli Steinar nágranni á Akureyri okkur hjónum með sér í ferð fram í Fjörður, ferðinni var heitið í sjálfan Hvalvatnsfjörð, aðeins að skoða hvort veiðivon væri í ánni og til að gefa mér tækifæri til að skoða og safna litum náttúrunnar. Ferðin var veisla fyrir skynfæri, veðrið fallegt og hlýtt, ilmur í lofti og ber á lyngi. Aðeins farið að blása þegar við komum loksins að vatninu í fjarðarminninu. Sogið í þungri úthafsöldunni þegar hún skall á fallegum lágbörðum steinum eins og fegursta tónlist.
Þegar ég kom heim langaði mig til að gera tilraun til að fanga þær tilfinningar sem bærðust með mér við ferðina fram í Fjörður. Reyna að ná að sauma í mynd, liti og tilfinningar sem tengdust, fífum, beitilyngi, bláberjalyngi, lækjanið, spegilsléttum tjörnum, fjöru, og sjó.
Ég átti fallegt gult bómullarefni, sem ég ákvað að hafa sem bakgrunn fyrir saumamyndina, ég ákvað líka að myndin ætti að vera stór, á endanum er þetta með stærstu myndum sem ég hef saumað. Liturinn sem ég er með í grunninn hverju sinni hefur áhrif á hvernig ég sauma og mjög oft litavalið. Myndina verður til á efninu, stundum ákveð ég að búa til hringi þar sem eiga að vera tjarnir eða móar, en að öðru leyti er myndin ekki skissuð, þannig var það með þessa mynd. Í botninum er ég með ullargarn sem ég keypti að mestu á nytjamörkuðum, þúfurnar eru fylltar með ull. Þegar ég er búin að þekja yfirborðið með ullargarninu, fer ég aðra umferð með útsaumsgarni og tvinna. Það geri ég til að fá áferð, ekki ósvipaða og pennsilför. Ofan á það lag sauma ég hnúta og annað sem mér finnst eigi að vera. Þó auðvitað sjá þeir sem upplifa ekki endilega að ég er að hugsa um ákveðnar plöntur, fífur, holtasól, berjalyng, sóleyjar, fíflar. geldingarhnappar, eyrarsól, engjasól og svo framvegis þá eru þær þarna.
Ég læt fylgja með mynd af myndinni og nokkrar myndir frá deginum fram í Fjörðum í ágúst 2021.























Um Fjörður
Samkvæmt Wikipedia eru Fjörður (kvk. ft.) eyðisveit á skaganum milli Eyjafjarðar og Skjálfandaflóa, sem heitir Flateyjarskagi eða Gjögraskagi. Fjörður byggðust á landnámsöld og síðustu bæir fóru í eyði 1944. Kirkjustaður Fjörðunga var á Þönglabakka við Þorgeirsfjörð. Sveitin náði yfir Þorgeirsfjörð og Hvalvatnsfjörð, eða frá Hnjáfjalli í vestri til Bjarnarfjalls í austri. Þorgeirshöfði liggur á milli fjarðanna tveggja.
