„Þar geymi ég hringinn“

Sýning í Listasafni Samúels Jónssonar í Selárdal

Höfundur: Kristín Dýrfjörð, netfang dyr@unak.is

Í sumar (2023) munu útsaumasverk eftir mig vera til sýnis í Listasafni Samúels Jónssonar í Brautarholti í Selárdal. Á sýningunni er bæði gömul verk og ný, móar, fulgar og plöntur og fólk. Sýningin stendur til 3. september 2023. Opið er alla daga í Listasafni Samúels fram til þess tíma.

Þegar það var ákveðið að ég sýndi í Selárdal, fór ég að skoða myndir og sagnir á neti. Þessi mynd af Samúlel dvaldi með mér. Ég ákvað að reyna að ná henni fram í útsaumi. Skrifaði líka Listamaðurinn M (með) barnshjartað en hann stillir hönd á öxl barnsins með hjartað.

Síðan mun taka breytingum í sumar, svona eftir því sem tími vinnst.

Ég hef gert síður um myndir sem ég saumaði eftir ferð í Hvalvatnsfjörð og um minningu pabba frá fyrstu sól ársins, þar sem heyra má hann segja þá sögu. Upplýsingar um mig er hægt að finna hér.

„Þar geymi ég hringinn

Myndin sýnir móa, steina og plöntur. Hún er saumuðu í júní 2023.

Nafn sýningarinnar vísar annarsvegar í lífsstarf mitt sem tengist börnum og barnamenningu, og hins vegar er það óður til saumhringsins, en ég nota útsaumshringi við saumaskap og hringformið heillar mig. Margir þekkja barnaleikinn, Í grænni lautu, en það nafn gaf ég síðustu sýningu í Bókasafni Árbæjar. Nú er komið að næstu línu. „Þar geymi ég hringinn“, kannski á ég eftir að vera með sýningu um það sem mér hefur verið gefið, bæði vöggugjafir og svo allar þær gjafir sem fólk hefur fært mér, meðal annars þræði og hringi.

Fulg og barn
Fuglinn og barnið

Í Arnarfiðri eru til frásagnir af því að í gamla daga hafi örn gripið 2ja ára gamalt barn og flogið með það út yfir sjó, þar hafi sjómenn verið og náð barninu heilu úr klóm össu. Fuglinn minn er reyndar ekki örn, hann er ævintýrafugl, og rauði þráðurinn er blóðið sem drýpur úr barninu.

Hér má lesa um íslenska konu sem lenti í arnarklóm.

Fuglinn er gerður úr pappamassa og vír, barnið úr vír og ullarþráðum.

kría
Kríur

Í gegn um tíðina hef ég saumað margar kríur, raunar svo margar að ég er búin að búa til sérstaka síðu fyrir kríur. Þar sem ég leitast við að skoða hvers vegna þær heilla mig.

Myndin hér til hliðar er af kríu svífandi yfir litsterkum móa er af sýningunni, hún var saumuð í vetur, kría á hvítum og fjólubláum bakgrunni eru fá 2020 og þessi slitla sem em svífur yfir móanum er frá 2023.

Hlaupahjólið

Þetta er sjálfsmynd, hún sýnir konu sem er á hlaupahjóli lífsins, hún er komin yfir sextugt, það er komið haust í líf hennar, ekki vetur. Gróðurinn er haustlegur, hvannaskógur, sólin er farin að halla, brekkur lífsins framundan, hún hleypur í átt að 67 afmælisdeginum, konan er sjálf gerð úr 100 ára gömlum nótnapappír, á bakhlið hans, inn í konunni, er menúett, eini dansinn sem hún hefur lært. Myndin er saumuð á grófan striga, árin eru saumuð með nær samlitu garni, þau eru þarna en ekki afgerandi.

Læt fylgja með eina mynd á vinnslustigi. Ég byrjaði á að sauma konuna á strigann og þaðan tók myndin á sig mót.

Bláberjabrekkur

Þegar tekur að hausta, hlakka ég til litasinfóníu náttúrunnar og berja. Haustið 2022 tíndi ég mikið af berjum, meðal annars lentu nokkur kíló af aðalbláberjum í fötunni hjá mér. Ég fór daglega eftir vinnu í átt til fjalla, átti góða stund með berjum og brekkum. Að horfa á aðalbláberjalyngið bera við himinn er ævitýri dagsins. Að taka myndir og skoða það síðan með nál og þráð er með skemmtilegri rannsóknum. Afraksturinn er þessar myndir.

Móar

Ég hef gert nokkuð margar þúfur og móamyndir. Ég hef frá unga aldri verið með nefið niður í jörðinni, skoða plöntur, tínt grös. Ég var enn unglingur þegar ég keypti mína fyrstu grasabók, það var endurprentun á bók um lækningajurtir. Heima borðuðum við fjallagrös, aðallega í grasamjólk, sjálf hef ég haft tröllatrú á grasaseyði frá unga aldri og tíní vel af grösum. Frá barnsaldri teiknaði ég og pressaði plöntur. Innan úr bókum mínum hrundu plönturnar og seinna gerði ég með blómapressu. Í dag finnst mér fátt meira slakandi en að fara í gönguferð með símann og taka myndir langt ofan í móann.

Móamyndir geta verið seinsaumaðar, fyrst sauma ég með ullargarni, svo með tvinna eða útsaumsgarni svona eins og til að búa til pensilför í ullina, ofan á bæti ég þúfum og vötnum og að lokum sauma ég áferð, oft með ýmsum hnútum. Þegar ég sauma hugsa ég um plöntur, oft fífusund, lambagras, blóðberg, geldingarhnapp, holtasól og svo framvegis. Kannski að engin nema ég sjái hvaða plöntur ég er að hugsa um en það er allt í lagi. Hver getur ímyndað sér eigin flóru. Það er líka áhugavert að pæla aðeins í hlutföllum á milli móamynda, það eru ekki allir sem átta sig á að mói sem er 10 cm í þvermál er að flatamáli 78.5 cm2 á meðan að mói sem er 20 cm er 314 cm2. Síðan fer tíminn líka eftir fjölda þúfa og hversu flókið sporin eru á þeim.

Eldfjöllinn – Fagradalsfjall

Við hrisstumst öll hér á suðurhorninu í nokkrar vikur, við vissum öll að eitthvað væri móðir jörð að baxa. Svo hófst það í beinni útsendingu 19. mars 2021 í miðju kóvíd. Ég treysti mér ekki til að ganga upp að því í byrjun. Horfði þess í stað dáleidd á gosið í beinni, horfði á fólkið sem sat í dalverpinu í upphafi goss (sem má sjá á myndinni hér til hliðar). Ég ákvað að sauma gosið.

Ég gerði þrjár myndir, tvær þrívíðar, sem ég byggði gosið upp í myndinni, lag eftir lag, eins og gosið sjálft var að byggja nýja mynd af landslaginu, lag fyrir lag. Síðast gerði ég eina tvívíða mynd. Í þessar myndir notaði ég perlur, eitthvað sem ég hef ekki gert mikið af.

Skrímsli

Í Arnarfirði eru margar sögur af skrímslum í sjó. Skrímslið hér við hliðina saumaði ég allt í silfurþráðum og fornum palíettum. Það býr í þaraskógi á sjávarbotni.

Einhver hefur raskað ró skrímlisins hér við hliðina. Það er komið upp á yfirborðið, og reynir að bíta á hjá veiðimanni sem er að reyna að ná í fiska sem hafa sloppið úr eldi, en fær bara stórt og mikið skrímsli.

Eiginmaðurinn segir mér að ég hefði átt að hafa línuna hvíta. Alla vega ekki svarta. En auðvitað bíta vestfirsk skrímsli á svartar línur.

Myndir frá sýninguni í Listasafni Samúels Jónssonar í Brautarholti í Selárdal
  • Sýning í Selárdal
  • Sýning í Selárdal