Categories
Ýmislegt

Kristín Dýrfjörð

Um höfund

Netfang dyr@unak.is

Um mig

Ég er fædd í Hafnarfirði 1961, en flutti sama ár norður á Sauðárkrók þar sem ég hóf skólagöngu, síðar flutti ég suður í Blesugróf þar sem ég ólst upp inn í miðri borg, en með móa á aðra hönd og Elliðaárdalinn á hina, staðir sem ég sæki enn í að ganga um og sækja innblástur. Sem barn hafði ég unun af sköpun, sem leiddi til þess að í nokkur ár fékk ég að sækja tíma fyrir unglinga í Myndlista- og handíðaskólanum hjá Jóni Reykdal. Það leiddi líka til þess að val mitt bæði í gagnfræðaskóla og Fjölbraut í Breiðholti snérist um skapandi greinar. Sköpun varð síðan förunautur minn í starfi í  leikskólum næstu árin og áratugina. Ég er þeirrar skoðunar að grunnur sköpunar liggi í töfraheimi leiksins, í hugarheimi bernskunnar og á það bæði við um listamenn og vísindamenn. Að við sem manneskjur getum ekki lifað af án skapandi afla í umhverfi okkar.

Ég er leikskólakennari, og starfaði sem slík frá 1986 -1997 og 2010 (bæði sem leikskólakennari en lengst af sem leikskólastjóri). Í starfi mínu í leikskólanum lagði ég mikla áherslu á sköpun, hún hefur verið minn förunautur lengi.

Árið 1997 hóf ég störf við háskólann  Akureyri, þar sem ég kenni m.a. um sköpun barna og leik. Rétt upp úr aldamótum bættist svo við námskeið sem ég hef kennt frá upphafi vísindasmiðja þar sem ég hef leitast við að tengja saman fjölbreytta sköpun við leik og náttúruvísindi. En ég kenni líka um sjálfbærni, og í þeim anda er garnið sem ég nota meira og minna keypt á nytjamörkuðum eða fengið frá vinum og vandamönnum.   

Nafn sýningarinnar er tenging milli heimanna minna. Annars vegar er það lífstarfið sem tengist börnum og barnamenningu, og hins vegar er það óður til saumhringsins, en ég nota útsaumshringi við saumaskap og hringformið heillar.

Í grænni lautu,

þar geymi ég hringinn,

sem mér var gefin,

og hvar er hann nú?

Leikurinn, Í grænni lautu er gamall hring- og söngleikur barna.

Ég held líka út síðu sem tengist starfi mínu fyrir leikskóla www.laupur.is

Sýningar

Listasafn Samúels Jónssonar, Brautarholti, Selárdal 2023
Salon des Refusés Í Deiglunni 2019, 2021, 2023 (Sauma- og málverk).
Borgarbókasafn Reykjavíkur, Árbær ‚“Í grænni lautu“ febrúar – maí 2023
Safnasafnið – sumarsýning 2022
Bókasamlagið  – Sumar 2022
Bókasafn Háskólans á Akureyri  – október –desember 2022

Höfundur færslu Kristín Dýrfjörð

Síðan er um saumaskap og aðra skapandi vinnu sem ég dunda mér við og er mér nauðsynleg.