Kríur

Þegar ég var lítil stelpa á Króknum átti ég heima suður í bæ, nærri mjólkursamlaginu og Ábæ. Sunnan við samlagið voru móar og þúfur, þar verptu kríur, og hofsóley óx þar við skurði. Krían var árásargjörn og við stundum með prik. Á þessum árum voru ekki verksmiðjueggjabú, mamma keypti stundum egg frá býli. Eitt vorið tíndum við svolítið af kríueggjum, fórum með þau heim eins og hvert annað gull. Mamma bakaði jólaköku og liturinn á kökunni er enn djúpt í meðvitund minni, kannski misminni en liturinn appelsínugulur.

Krían er sá fugl sem flýgur allra lengst, hún kemur langt yfir hafið frá vetrarstöðvum í sunnanverðri Afríku og suðurodda Chile alla leið til Íslands til að verpa og koma upp ungum. Krían er stjarnan í MileHigh klúbbnum, hún flýgur um 2,4 milljónir kílómetra ef hún nær að vera þrítug sem er ekki óalengur liftími. Hún er birtufíkill og upplifir vorið 2x hvert ár, bæði í suðrinum og norðrinu. Hugsið ykkur, hún er ekki nema rétt um um 130 grömm en samt hefur hún vænghaf upp á 75 -85 sentimetra. Já og svo er krían eins og hrafninn og fleiri fuglar, hún finnur sér maka til lífstíðar.

Kríur

Krían ber glæsilegt heiti á latnesku Sterna paradisaea, paradísar stjarnan. Að horfa upp í heiðan himinn og sjá kríu svífa yfir er eins og ég ímynda mér að horfa inn í himnaríki. Þar sem vængmiklir englar svífa og líkjast stjörnum á himnafestingunni. Svona ef fólk trúir á slíkt. Kannski eru kríur einmitt fyrirmynd englanna. Þær er líka fuglar sem vernda aðrar tegundir, halda vel utan um unganna sína. En þrátt fyrir þetta fallega latneska nafn finnst mér kría fallegra, ekki ómþýtt nafn en sterkt, sjálfstætt og snaggaralegt alveg eins og fuglin sem ber það.

Þegar ég var barn, voru kríur allstaðar, við tókum þeim sem sjálfsögðum og fögnuðum að finna kríuegg, og bölvuðum því að vera húfulaus þegar krían stakk sér niður að þjófunum. Núna hefur henni fækkað svo að hún er komin á válista yfir tegundir í hættu. Og það er okkur mönnunum að kenna. Næringin sem hún þarf úr sjónum er ekki lengur þar sem hún á að vera, sandsílastofnin hruninn.

Ég held að einn fyrsti fuglinn sem ég saumaði hafi einmitt verið kría, man það ekki alveg. Til að átta mig á hvernig ég ætti að sauma hana teiknaði ég hana aftur og aftur

Kría