Categories
Minningar

Ársins fyrsta sól

Kristín Dýrfjörð 2. júní 2023

Á Siglufirði sést ekki til sólar frá því 15. nóvember ár hvert þar til 28. janúar árið eftir, vegna hinna tignarlegu fjalla sem umlykja fjörðin. Stundum er sólin farin fyrr, vegna veðurs og stundum sést hún ekki fyrr en kannski í febrúar vegna skýja og hríða. Undafarin ár hef ég gert smávegis af því að sauma minningar. Ég byrjaði á mynd um minningu mömmu og henni fylgir lítil saga. Í vetur var ég að spjalla við pabba (fæddur 1935) um hvað markar árið og líka um hvenær börn upplifa gleði. Hann sagði mér þá frá kærri minningu, þegar hann og vinir hann upplifðu sólina á eigin skinni í fyrsta sinn eftir langan vetur. Ég ákvað að sauma þessa minningu. Fyrst ætlaði ég að sauma hana sem hefðbundna mynd, en fannst ég ekki ná tilfinningunni nógu vel. Svo ég ákvað að sauma hana þrívíða, með ull, silki og bómullarbandi, en líka smávegis af perlum og palíettum til að fá glitrandi snjó.

Á myndinni eru þeir Biggi í Hlíð, Eiki Óla og Óli Níels og svo ákvað ég að hafa með barn á tunnuskíðum að fylgjast með þeim félögum.

Hljóðupptaka

Hér að neðan má heyra Birgi Dýrfjörð segja Sölva sonarsyni sínum söguna. Hljóðupptaka var gerð þann 1. júní 2023.

Myndir af verkinu á ýmsum stigum.